Multilingual Folk Tale Database


Information

Author: Jón Árnason - 1852

Original version in Icelandic

Source: Íslenzkar þjóðsögur go æfintýri

Country of origin: Iceland

Translations

There are no translations available for this story

Add a translation

Skyldu bátar mínir róa í dag ?

Jón Árnason

Argasta kot í Helgafellssveit heitir í Botni, þar sér hvorki sól né sumar. Þar var einhverju sinni maður, allra sveita kvikindi, og hét Árni og var kallaður Árni í Botni.

Einhverju sinni bjó hann sig út með nesti og nýja skó, lagði á drógar sínar og hélt suður á land svo langt að enginn þekkti Árna í Botni.

Hann kom loksins að stóru og reisulegu prestsetri og var þar um nótt. Presturinn átti unga og fríða dóttur.

En þegar Árni vaknaði og skyggndist til veðurs sagði hann við sjálfan sig: "Og skyldu þá bátar mínir róa í dag?"

Þetta sagði hann eður annað því líkt þrjá morgna í rennu.

Presturinn og dóttir hans tóku eftir þessu og grunaði að hér mundi kominn stórhöfðingi af Vesturlandi. Það er ekki að orðlengja að Árni bað prestsdóttur og fékk, og voru nú settir undir þau gæðingar og þau héldu vestur um land.

En við hvern stórbæ sem fyrir þeim varð á leiðinni sagði hún við bónda sinn: "Og er þetta bærinn þinn, elskan?"

"Og ekki enn," sagði hann.

Ríða þau nú lengi, lengi, þangað til eitt kveld í níðamyrkri að þau koma að koti einu, allt grafið í jörð niður. Hér fer Árni af baki og tekur af baki konu sína.

"Er það bærinn þinn að tarna, elskan?" segir hún.

"Já," segir Árni.

Nú ber Árni að dyrum og kemur kerlingarskrukka móðir Árna til dyranna og spyr hver kominn sé og segir Árni til sín og kallar inn því ekki sá handaskil í níðamyrkrinu:

"Kveiktu á gullstjakanum."

"Og ekki get ég það," sagði kerling.

"Kveiktu þá á silfurhjálminum," sagði Árni.

"Og ekki get ég það," sagði kerling.

"Og kveiktu þá á helvískri kolskörunni," sagði hann.

"Og það skal ég gera," sagði kerling og hljóp til og kveikti.

Um sambúð þeirra Árna og prestsdóttur er ekki getið.

Um Árna í Botni er þetta kveðið:

Árni í Botni allur rotni, ekki er dyggðin fín; þjófabæli, það er hans hæli, þar sem aldrei sólin skín.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - mars 1999