Multilingual Folk Tale Database


Information

Author: Jón Árnason - 1852

Original version in Icelandic

Source: Íslenzkar þjóðsögur go æfintýri

Country of origin: Iceland

Translations

There are no translations available for this story

Add a translation

Geirmundarstaðadraugurinn

Jón Árnason

Árið 1750 kom upp draugur á Skarðsströnd á bæ þeim sem heitir á Geirmundarstöðum. Sáu hann margir, bæði skyggnir og óskyggnir. Var það strákur næstum því á meðalmannshæð, en grannlegur mjög og hokinn í göngu.

Varð lítið mein að honum; hann drap nokkrar skepnur á Geirmundarstöðum og Manheimum, sókti mjög að fólki á nóttum og sýndi þá af sér ýmsar glettingar, þreif rúmföt ofan af mönnum og kastaði að þeim kaldyrðum, sagði að séra Jón Bjarnason sem þá var prestur í Skarðsþingum hefði vakið sig upp og sent sig til áreitinga við sóknarfólkið. Var því trúað af sumum og varð af orðasveimur og kali milli sóknarfólks og prests.

Vinnukona var þá á Skarði er Oddný hét; hún mælti óhræðslulega og kvaðst ekki mundu hræðast vofu þessa ef nokkur væri.

Á einni nóttu kemur hann upp á svefnloft á Skarði, þar vinnukonur sváfu; ein þeirra var vakandi er Halldóra hét. Hún sér að draugsi læðist upp um uppgönguna, skríður svo endilangur eftir loftinu unz hann kemur að rúmi Oddnýjar. Réttist hann þá nokkuð upp, þrífur í rúmföt hennar og sviptir þeim af henni.

Hún vaknar við vondan draum og lítur upp og sér hver kominn var. en hann gýtur á hana ranghvolfdum augum; verður henni þá bilt við allt saman og vogar hvorki að æmta né skræmta. Þá segir draugsi: "Oddný, ætlar þú lengi að liggja ber?" - og hverfur síðan.

Móti þessum óvini var nokkrum sinnum beðið af prédikunarstól og við það batnaði syni áðurnefnds prests sem mest var af þessum óvini ásóktur. og síðan hvarf hann með öllu. En sumir segja að Latínu-Bjarni hafi afráðið hann og sett hann niður undir fossi þeim er Gullfoss heitir og er allskammt frá hænum Kleifum í Gilsfirði.